Grillsumar

13 Maí

Við grilluðum ferskan maís í fyrsta skipti í gær – ljúffengt. Munurinn á frosnu og fersku er mjög mikill finnst mér, en fersku stönglarnir eru mun sætari.

Það er ekki flókið að græja svona maís. Það þarf að láta hann liggja í vatni í 10 mín, svo blöðin utan um sjálfan stöngulinn sjúgi í sig vatnið, maísinn eldast svo á grillinu uppúr vökvanum sem er í blöðunum. 

Image

Næst þarf að skera endana af og rífa blöðin varlega af honum, samt þannig að meirihluti þeirra haldist á. Innst við stöngulinn eru tægjur sem þarf að hreinsa burt (sjá mynd) eins vel og hægt er.

Síðan penslaði ég stönglana rausnarlega með ólífuolíu, vafði blöðunum aftur utan um stöngulinn og skellti á grillið í ca. 15 min. Þegar grilltíminn er hálfnaður má snúa þeim við. 

Image

Borið fram með smjöri og salti. 

 

Auglýsingar

Hveitikímsklattar & hveitikíms-pizza

11 Maí

Ég er vöknuð til lífsins á ný eftir prófin – búin að hreinsa út úr ísskápnum allt sukkið sem á til að fylgja með prófalestri.. Ég þráði því góða hveitikímsklatta til að borða í millimál (og kvöldmat eins og þið sjáið neðar).

En hvað er þetta hveitikím? Hveitikím er hjarta hveitikjarnans og verður oftast til sem aukaafurð við mölun hveitis. Kímið er hreinsað burt þegar hvítt hveiti og flestar tegundir heilhveitis er búið til því olían í kíminu styttir geymsluþol hveitisins verulega.

Image

Kímið er stútfullt af næringarefnum – e-vítamín, meira magn kalíums og járns en nokkur önnur fæðutegund, Omega-3 fitusýrur, ríbóflavín, kalsíum, sink, magnesíum og A-, B1- og B3-vítamín í miklu magni.

Fyrsta uppskriftin sem ég gerði af hveitikímsklöttum var hrikaleg. Ég notaði ekkert krydd, bara hveitikím og vatn, sem er alls ekki málið. Við viljum nota góð krydd – eiginlega hvaða krydd sem er, en ég nota oftast papríkukrydd, steinselju, karrý eða eitthvað annað bragðmikið.

Í klattana sem ég gerði í gær notaði ég:

30g kím pr. klatta – ég gerði 8 venjulega klatta en 2 stærri (til að nota í pizzubotn)

1 tsk vínsteinslyftiduft

1 tsk maldonsalt

1 tsk nýmalaður pipar

1 1/2 tsk chilli-krydd

2 tsk oregano

1 bolli 5-kornablanda (finnst það algjört must! Gefur klöttunum miklu meiri fyllingu)

Ólífuolía

Image

Þetta er sáraeinfalt – blanda öllu saman (nema olíunni)

Image

Bæta við volgu vatni, svo blandan verði eins og þykkur hafragrautur

Image

Olía á bökunarpappír. Búa til klatta í höndunum. Alls ekki hafa þá of þunna, þá verða þeir svo harðir. Trixið er að hafa pínu blautar hendur svo gumsið límist ekki við hendurnar á manni.

Image

Bakað við 180°c þar til klattarnir eru orðnir gylltir og fallegir. Þumalputta reglan mín er að pota aðeins í þá og ef þeir eru fallega gylltir en ennþá pínu mjúkir eru þeir fullkomnir!

Image

Svo er hægt að gera svo margt sniðugt með klattana – kotasæla, svartur pipar & gúrka klikkar ekki í millimál, en í kvömdat er ótrúlega gott að búa til flatböku. Ég nota tómata, spínat, sveppi, papríku, smá rjómaost, pizzasósu á botninn og ost yfir. Inn í ofn þar til osturinn er bráðinn.

Image

Hveitikímið fæst í Krónunni og er alls ekki dýrt!Uppáhalds morgunmaturinn þessa dagana

29 Feb

NAMMI!

AB-mjólk með bönunum, ristuðum kókosflögum og hunangi.

Fylltar svínalundir – laugardags

26 Feb

Við Bríet frænka gerðum vel við okkar um helgina og prófuðum þessa geggjuðu uppskrift af fylltum svínalundum. Ég borða yfirleitt ekki mikið af svínakjöti, en það kom á óvart hvað það var mjúkt og gott.

Við fengum góða lund í Melabúðinni, en mælt er með einni lund pr. 3 manneskjur.

Stillið ofninn á 180°c.

Kryddlögur:

1 bolli ólífuolía
1/4 bolli soja
1 msk rósmarín (endilega ferskt ef maður á það til, annars þurrkað)

Öllu blandað saman og leyft að standa á meðan fyllingin og lundin er græjuð.

Fylling:

1 laukur, smátt saxaður
2 hvítlauksgeirar, kramdir
80 g sveppir – fyrir þá sem vilja vera nákvæmir
Rifinn mozarellaostur…eftir smekk!
Sólþurrkaðir tómatar, smátt saxaðir – við notuðum 1/3 af krukku & olíuna af tómötunum til steikingar.

Laukur og sveppir steiktir upp úr smá ólífuolíu. Tómötum bætt við, og dass af tómataolíunni hellt yfir. Hvítlauknum bætt útí. Örlítið salt og pipar. Mozarella ostinum bætt við svo hann bráðni. Sett til hliðar og leyft að kólna.

Þá er komið að lundinni sjálfri. Hún er snöggsteikt á pönnu og lokað á alla kanta. Þar næst er skorið djúpt í hana og hún fyllt með fyllingunni góðu. Best er að nota sláturgarn til að loka lundinni, en ég er ekki svo rík að eiga svoleiðis, þannig að við notuðum tannstöngla í staðin, sem virkaði bara vel. Lundin er svo pensluð með kryddleginum. Eldað við 180°c í 15 min ca.

Við bjuggum til of mikla fyllingu, en það var alls ekki leiðinlegt – leyfðum henni bara að fylgja með í mótið.

Bárum þetta fram með góðu salati og sætum kartöflum. Njótið vel!

Kjúklingasalat með stökku beikoni og gráðosti

5 Feb

Ég er gráðost-sjúk. Ég kaupi samt mjög sjaldan gráðost þar sem K lætur hann ekki inn fyrir sínar varir, en í vikunni fékk ég craving í gráðost sem aldrei fyrr. Þá varð þessi kjúklingasalats“uppskrift“ til.

Fyrir ykkur gráðostaæturnar er þetta algjört nammi!

Í þetta salat notaði ég:

Fullt af spínati
Tómat
Gúrku
Graskersfræ
Balsamic edik
Sítrónu
Kjúkling (+ rósmarín, steinselja, papríkukrydd, salt)
Beikon
GRÁÐOST

Steikið kjúklinginn á pönnu á meðalhita. Ég kryddaði hann með þurrkuðu rósmarín, steinselju, papríkukryddi og salti, sem er mín uppáhalds kryddblanda í kjuklingasalat, en notið það krydd sem ykkur finnst best á kjúkling!

Á meðan kjúklingurinn er að malla – blandið saman í skál spínati, tómat, gúrku, balsamic ediki (eftir smekk – alls ekki setja of mikið, balsamic er mjög yfirgnæfandi, myndi setja ca. 1 tsk) og ferskum sítrónusafa (umþb. 1 tsk). Setjið á fallegan disk.

Ef kjúklingurinn er ekki tilbúinn á þessum tíma, setjið hann í lítið eldfast mót og inn í ofn á lágan hita. Steikið beikon á frekar háum hita svo það verði stökkt og gott. Gott er að þurrka beikon eftir steikingu á eldhúsbréfi svo salatið sé ekki löðrandi í beikonfitu.

Setjið kjúllann + beikonið á salatið, myljið gráðost yfir og hendið nokkrum graskersfræjum yfir (skemmir ekki fyrir ef þau eru ristuð + söltuð).

Njótið!

Döðlukaka með heitri karamellusósu

29 Jan

Þessa uppskrift fann ég á Eldað í vesturheimi, (sjá uppskrift þar) en ég prófaði hana í gær sem dessert.

Kakan er dí-sæt, mjúk og bara algjör unaður. Þetta er samt „one slice, and one slice only“ kaka, þar sem hún er ótrúlega sæt. Ég bar hana fram með þeyttum rjóma, held það sé algjört must.

Það sem tók lengstan tíma var að sóða niður karamellusósuna. Það segir í uppskriftinni að það taki 5 mínútur, en það tók mun lengri tíma þar sem það þarf að sjóða sósuna vel niður.

Góð tilbreyting frá frönsku súkkulaðikökunni sem hefur verið ríkjandi í öllum matarboðum uppá síðkastið…

 

Njótið!

Helsinki

27 Jan

Ég er með Helsinki á heilanum þessa dagana. Ég hef aldrei komið til Finnlands, en hef heyrt svo marga góða hluti um höfuðborgina. Borgin hefur verið útnefnd Hönnunarborg heims 2012 af alþjóðlegu hönnunarsamtökunum Icsid.

Það vantar heldur ekki uppá matarmenninguna í borginni; ég skrifaði um  Resturant Day fyrir stuttu, en það concept hefur teygt anga sína til Reykjavíkur. En það nýjasta sem ég rakst á var þetta myndband frá pop-up veitingastaðnum Lapin Kulta Solar Kitchen Restaurant sem nota merkilega eldunaraðferð – en kokkarnr á staðnum nota einungis sólarorku til eldunar.

Kalasatama from LapinKultaSolarKitchenRestaurant on Vimeo.

Helsinki er klárlega borgin til að heimsækja í sumar. Ef ég færi til Finnlands í sumar myndi ég:

Gista hér

Hlusta á tónlist hér

Borða hér

Kaupa mér fullt af svona